Fréttir & tilkynningar

28.01.2026

Þorrablót

Þorrablót eru gömul hefð sem var vakin aftur til lífsins á 19. öld. Þá kemur fólk saman, borðar góðan mat, syngur og skemmtir sér til að stytta biðina eftir vorinu. Maturinn sem við borðum á þorrablótum er í raun geymsluaðferðir forfeðra okkar. Áður en ísskápar voru fundnir upp þurfti að geyma matinn í salti eða súr (mysu). Þorri er fjórði mánuður vetrar samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann byrjar alltaf á föstudegi í 13. viku vetrar (á tímabilinu 19. til 25. janúar). Fyrsti dagur þorra er Bóndadagur. Í gamla daga var það siður bænda að bjóða þorra velkominn með því að fara út, klæddir í aðeins eina brókarskálm, og hoppa í kringum bæinn. Spurning hvort einhverjir nýti þennan gamla sið enn í dag. Í dag, 28. janúar, var haldið þorrablót hjá okkur. Þá komu allir saman í matsalinn, sungu fjögur lög saman og borðuðu svo góðan þorramat og var gaman að fylgjast með hversu duglegir nemendur voru að smakka þorramatinn. Einnig var gamaldags fatnaður hafður í hávegum í dag og mættu nemendur og starfsfólk í hinum ýmsu fötum sem tengjast gömlum tímum.
22.01.2026

Útikennsla: tækni og hönnun

Nemendur í 5.-7.bekk unnu saman í útikennsluverkefni í gær. Verkefnið var að hanna og búa til skutlur. Nemendur unnu saman í hópum og var byrjað inni á því að búa til skutlurnar og gera þær tilbúnar fyrir flug. Síðan var farið út fyrir skólann og þar reyndu nemendur að láta skutlurnar fljúga sem lengst. Tímataka og lengdarmælingar voru hafðar til hliðsjónar til að finna út hver færi lengst. Notast var við spjaldtölvur við tímatöku og málbönd við lengdarmælingar, en þar reyndi þó nokkuð á reikningshæfni nemenda. Það þótti líka mjög jákvætt að skutlurnar færu snúning, en þar var hægt að ná sér í aukastig. Í lokin var boðið upp á dýrindis kakó og piparkökur sem nemendum þótti nú ekki amalegt að fá. Í þessu verkefni reyndi á samvinnu, hugmyndaflug, stærðfræði og hönnun.
08.01.2026

Ógleymanlega martröðin

Hefur þú einhvern tímann vaknað sveitt(ur) eftir draum sem var svo raunverulegur að hann fylgdi þér langt fram á dag? Martraðir geta verið skrýtnar, fyndnar, óþægilegar og stundum óþægilega kunnuglegar. Þær birtast oft þegar síst skyldi – og skilja eftir sig spurningar, ónotatilfinningu og jafnvel hlátur þegar maður hugsar til baka. Úr slíkum draumum sprettur leikritið Ógleymanlega martröðin, ný sýning sett upp af nemendum í 8.–10. bekk. Í verkinu fléttast saman óvæntar uppákomur og ýktar aðstæður. Handritið er frumsamið af nemendum í 10. bekk. Handritið er bæði spennandi og skemmtilegt, þar sem draumar og veruleiki renna saman á óvæntan hátt. Nemendur hafa unnið verkið frá grunni með mikilli sköpun, hugmyndaflugi og leikgleði – og útkoman er martröð sem gleymist ekki í bráð. Við bjóðum alla hjartanlega velkomna að upplifa Ógleymanlega martröð föstudaginn 16. janúar kl.20 í Miðgarði.
20.12.2025

Jólakveðja