Fréttir & tilkynningar

08.01.2026

Ógleymanlega martröðin

Hefur þú einhvern tímann vaknað sveitt(ur) eftir draum sem var svo raunverulegur að hann fylgdi þér langt fram á dag? Martraðir geta verið skrýtnar, fyndnar, óþægilegar og stundum óþægilega kunnuglegar. Þær birtast oft þegar síst skyldi – og skilja eftir sig spurningar, ónotatilfinningu og jafnvel hlátur þegar maður hugsar til baka. Úr slíkum draumum sprettur leikritið Ógleymanlega martröðin, ný sýning sett upp af nemendum í 8.–10. bekk. Í verkinu fléttast saman óvæntar uppákomur og ýktar aðstæður. Handritið er frumsamið af nemendum í 10. bekk. Handritið er bæði spennandi og skemmtilegt, þar sem draumar og veruleiki renna saman á óvæntan hátt. Nemendur hafa unnið verkið frá grunni með mikilli sköpun, hugmyndaflugi og leikgleði – og útkoman er martröð sem gleymist ekki í bráð. Við bjóðum alla hjartanlega velkomna að upplifa Ógleymanlega martröð föstudaginn 16. janúar kl.20 í Miðgarði.
07.01.2026

Gleðilegt nýtt ár

Gleðilegt nýtt ár! Nú er skólastarfið hafið á ný eftir gott jólafrí. Næstu dagar munu litast mikið af undirbúningi fyrir árshátíð unglingastigs sem haldin verður í Miðgarði föstudaginn 16. janúar næstkomandi.
20.12.2025

Jólakveðja

Við sendum nemendum, foreldrum, starfsfólki og öllum vinum skólans okkar hlýjar og kærleiksríkar jólakveðjur. Á aðventunni gefst tækifæri til að staldra við, gleðjast saman og njóta þess sem skiptir mestu máli – samveru, hlýju og gleði. Við þökkum fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða og óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Megið þið eiga notalega jólahátíð. Skólinn hefst aftur eftir jólafrí mánudaginn 5. janúar kl. 10. Gleðileg jól!