Stoðþjónusta

Almennt

Varmahlíðarskóli er skóli fyrir alla nemendur og það er hlutverk skólans að stuðla að alhliða þroska og menntun allra nemenda sinna. Skólinn býður upp á einstaklingsmiðaðan stuðning til að koma til móts við mismunandi þarfir og getu hvers og eins nemanda.  Stoðþjónusta Varmahlíðarskóla byggir á grunnskólalögum, aðalnámskrá grunnskóla og skólastefnu sveitarfélagsins Skagafjarðar.  Einstaklingsmiðaður stuðningur kallar á  breytingu á innihaldi náms, kennsluaðferðum og/eða kennsluaðstæðum.  Við skipulagningu er tekið  mið af getu, þörfum og hæfileikum hvers einstaklings. Einnig miðast skipulagning við kennsluaðstæður, stærð bekkja og þá kennslukrafta sem völ er á.  Við viljum mæta hverjum  nemanda  með jákvætt viðmót og virðingu fyrir einstaklingnum að leiðarljósi um leið og passað er að verkefni hans séu við hæfi.  Það er mikilvægt að nemendum líði vel í skólanum og geti óhræddir beðið um aðstoð við nám, samskipti  önnur þau mál sem á þeim brenna.

Skipulagning og aðstæður

Deildarstjóri stoðþjónustu annast skipulagningu einstaklingsmiðaðs stuðnings innan skólans í samráði við stjórnendur, umsjónarkennara og aðra þá sem að stuðningi koma. Kennsla og stuðningur er í höndum  kennara, stuðningsfulltrúa og sérkennara.

Kennslan  er skipulögð með ýmsu móti, t.d. sem einstaklingskennsla eða  kennsla afmarkaðra hópa. Hún fer  fram innan eða utan bekkjar, einnig getur verið um  samvinnu tveggja kennara í kennslustofu að ræða. Stuðningur getur verið tímabundin aðstoð við nám eða einstaklingsbundin kennsla og umsjón sem nær til lengri tíma.

Skipulag námsstuðnings byggist á mati á stöðu einstakra nemenda. Þarfir nemandans eru greindar á grundvelli námsmats í skóla, skimunarprófa eða sértækra greiningarprófa, svo sem lestrargreininga, niðurstöðum samræmdra prófa  eða stærðfræðimats.   Einnig er stuðst  við greiningargögn frá sérhæfðum aðilum, svo sem Greiningarstöð ríkisins.

Einstaklingsnámskrá – áætlanir

Kennslan grundvallast á einstaklingsnámskrá,  þ.e. áætlun um kennslu viðkomandi nemanda.  Gerð námskrár er á ábyrgð viðkomandi umsjónar- eða fagkennara og þess/þeirra sem stuðningskennsluna annast í samráði við deildarstjóra.  Í henni eru sett fram markmið, kennsluaðstæður, námsefni og námsmat. Hún getur fjallað um allt frá einni námsgrein til alls skólastarfs nemandans. Þar geta verið kaflar um hegðun, samskipti og atferli daglegs lífs.  Einstaklingsnámskrá getur þannig verið mjög ítarlegt plagg en einnig áætlun um eina vikustund. Einstaklingsnámskrár eru samdar fyrir skólaárið en endurmetnar um miðjan vetur og við lok skólaárs.

Aðstoð í prófum

Við viljum að námsmat skólans sé sanngjarnt og gefi rétta mynd af getu nemenda.  Ef við teljum að nemendur þurfi sérstaka aðstoð við námsmat þá er því mætt. Stundum þarf að lesa upp texta og spurningar fyrir nemanda og/eða veita honum aðstoð við að skrifa upp svörin.  Eldri nemendur geta svarað munnlega og tekið upp svörin á tölvuna.  Sumir nemendur eru kvíðnir eða eiga erfitt með einbeitingu, þá getur verið gott að taka próf í næði í öðru rými. Ósk um aðstoð í prófum kemur yfirleitt fram í samtali nemanda og umsjónarkennara, einnig er gott að foreldrar geri viðvart ef þeir telja börn sín þurfa að aðstoð að halda. Sjálfsagt er að mæta þörfum nemenda með því að lengja prófatíma.

Teymisfundir

Fundað er reglulega vegna flestra þeirra nemenda sem njóta einstaklingsmiðaðs stuðnings af einhverju tagi.  Myndað er teymi sem í sitja foreldrar, umsjónarkennari, stuðningsfulltrúar sem aðstoða viðkomandi nemanda  og deildarstjóri stoðþjónustu.  Suma teymisfundi situr fulltrúi frá Fjölskylduþjónustu sveitarfélagsins og aðrir þeir aðilar sem að málum koma, svo sem sjúkraþjálfi og talmeinafræðingur.  Sum teymi funda á 6-8 vikna fresti, önnur sjaldnar.

Við viljum kappkosta að hafa gott samband við foreldra og að þeir séu með í ráðum um hvaðeina sem að skólagöngu barns þeirra lýtur.

Nemendavernd

Nemendaverndarráð fundar reglulega. Í því sitja: skólastjóri, aðstoðarskólarstjóri, deildarstjóri stoðþjónustu, námsráðgjafi, skólahjúkrunarfræðingur, skólafulltrúi fræðsluþjónustu og félagsráðgjafi fjölskyldusviðs. Sálfræðingur fræðsluþjónustu situr 2-3 fundi á skólaári. Skóla er skylt að gera foreldrum viðvart þurfi að fjalla um málefni barna þeirra á fundum nemendaverndarráðs en ekki þarf samþykki þeirra fyrir því.