Miðvikudaginn 23. október sl. fóru 5 rútur hlaðnar nemendum og starfsfólki Varmahlíðarskóla á árlegan vinadag í Árskóla. Er þetta í annað skiptið sem öll grunnskólabörn í firðinum koma saman ásamt skólahópum leikskólanna og skemmta sér við samveru, söng, leiki og dans. Vinateymi Skagafjarðar heldur utan um undirbúning og framkvæmd og er Sara Gísladóttir, umsjónarkennari 3. bekkjar fulltrúi Varmahlíðarskóla í teyminu.
Markmiðið með vinadeginum er fyrst og fremst að sýna sig og sjá aðra og minna á mikilvægi þess að enginn ætti að vera vinalaus. Selma Barðdal setti samkomuna sem fór mjög vel fram og var dagskráin fjölbreytt og skemmtileg. Þar má nefna að Ægir Ásbjörnsson ásamt fjórum nemendum úr Árskóla stýrði fjöldasöng. Allir vinaliðar í Skagafirði ásamt Gesti Sigurjónssyni kenndu og stjórnuðu vinaliðadansi og Logi Vígþórsson danskennari stóð fyrir mögnuðum fjöldadansi. Þegar söngvaskáldið Svavar Knútur skemmti nemendum komu nemendur úr FNV til að njóta með. Flestir voru sammála um að samvera árganga hefði lukkast einstaklega vel. Hér má sjá myndir frá deginum.