Úrslit í Verksmiðjunni 2019 verða tilkynnt í Listasafni Reykjavíkur í dag. Þrír nemendur Varmahlíðarskóla eiga eitt þeirra tíu verkefna sem komust áfram í úrslit, en alls voru 30 hugmyndir sem kepptu í undanúrslitum. Það eru Indriði Ægir Þórarinsson, Óskar Aron Stefánsson og Steinar Óli Sigfússon, nemendur í 9. bekk sem eiga hugmyndina MarkaLeifi. Hér má sjá hugmynd þeirra MarkaLeifi.
Til gamans má geta að Skagfirðingar eiga aðra hugmynd í úrslitum en það eru tvær stúlkur úr Árskóla með hugmyndina Ljóslitafilman/Ljósagardínan.
Verksmiðjan er nýsköpunarkeppni ungs fólks á aldrinum 13 til 16 ára, þar sem hugmyndir geta orðið að veruleika. Að verkefninu standa Samtök iðnaðarins, Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, Fab Lab á Íslandi, Menntamálaráðuneytið, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Listasafns Reykjavíkur og RÚV.