Eftir stranga og viðburðaríka viku er henni lokið með venjulegum degi. Unnið var alla vikuna að undirbúningi árshátíðar yngsta- og miðstigs og var hún haldin í Miðgarði í gær að viðstöddu fjölmenni. Sýndir voru þrír leikþættir;Grámann í Garðshorni, Þrautirnar þrjár og Bakkabræður og gafst áhorfendum því kostur á því að horfa inn í ævintýra- og þjóðsagnaheim um stund og rifja upp hvað sá heimur er oft í raun og veru líkur hversdeginum.
Samhliða þessum æfingum var tekið á móti gestum úr Erasmusverkefni. Gestirnir komu frá Finnlandi og Tyrklandi og unnu með nemendum í 9. og 10. bekk að framtíðarsýn um fyrirmyndarheim. Þetta var annar þáttur í því samstarfsverkefni. Hópur héðan fór til Finnlands í haust og verður lokáfanginn ferð til Tyrklands. Margs konar dagskrá var í tengslum við vinnuna. Heimsóknir og skoðunarferðir að ógleymdum kvöldvökum með skemmtiatriðum.
Allt er þetta enn í fersku minni og má lengi skemmta sér við þessa liðnu daga, en þó er rétt að minna á að hinir venjulegu dagar þurfa ekki að vera síðri en hinir, enda í grunninn alveg eins.