Myndir birtast þegar þær koma í hús. Hér má lesa fréttatilkynningu í Feyki en myndin sem fylgir þessari frétt var fengin að láni hjá Feykisfólki.
Fulltrúar skólans í keppninni voru Andri Snær Tryggvason í 10.bekk, Freyja Kolbrá Stefánsdóttir í 10.bekk, Dalmar Snær Marinósson í 10.bekk og Guðný Rúna Vésteinsdóttir 9. bekk. Varamenn voru þau Kristmar Helgi Jónsson í 10. bekk og Ásta Aliya Friðriksdóttir í 8.bekk. Undirbúningur og þjálfun hefur verið í traustum höndum Sigurlínu H. Einarsdóttur íþróttakennara.
Í Norðurlandsriðlinum voru 10 skólar mættir til keppni úr Húnaþingi, Skagafirði, Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Mikil gleði var í hópi áhorfenda og voru hvatningarhrópin afgerandi frá hverjum skóla fyrir sig. Kynnir keppninnar sá til þess að hver skóli gæti gefið það almennilega til kynna að hann væri mættur á staðinn.
Þegar keppni hófst var ljóst að Varmahlíðarskóli ætti raunhæfa möguleika á að komast í verðlaunasæti. Spennan jókst jafnt og þétt eftir því sem leið á keppnina og virtust verðlaun alltaf verða raunhæfari og raunhæfari möguleiki. Grunnskólinn austan Vatna var efstur eftir einstaklingsþrautirnar og því varð keppnin í hraðaþrautinni æsispennandi. Báðir skólar náðu góðum tíma í þrautinni en úrslitin voru þó ekki tryggð fyrr en síðustu keppendur komu í mark. Varmahlíðarskóli sigraði riðilinn með einu fleiri stig en Grunnskólinn austan Vatna sem lenti í öðru sæti. Sannkallaður Skagfirðingaslagur! Þar með hefur Varmahlíðarskóli tryggt sér þátttökurétt í lokakeppni Skólahreystis sem fram fer í Reykjavík 26. apríl næstkomandi. Áfram Varmahlíðarskóli!!!