Hér er ferðasaga Tyrklandsfara í stuttu máli og myndaalbúm sem sýnir vonandi glefsur af ferðinni:
Rétt fyrir miðnætti þann 23. september lögðum við af stað úr Varmahlíð og lentum í Istanbúl um 20:00 kvöldið eftir. Þá áttum við eftir ríflega tveggja tíma leigubílaferð til borgarinnar Bursa sem er austsuðaustan af Istanbul. Sú borg er m.a. þekkt fyrir marmara, silkiviðskipti og almenna velmegun.
Á hverjum degi vorum við sexmenningar sótt á hótelið og ferjuð yfir í menntaskólann Ipekcelik en sá skóli leggur jafnt áherslu á trúarleg gildi sem og alþjóðleg samskipti. Þar fór fram vinna við verkefnið en líka glens og gleði. Um 13:30 sýndu gestgjafarnir okkur Bursa-borg og nágrenni en Bursverjar eru mjög stoltir af rótum sínum sem þeir rekja til Ottóman-veldisins.
Á fimmtudaginn lauk verkefninu og eftir afhendingar á viðurkenningum og gjöfum og ótal faðmlögum og ,,selfíum”, tókum við ferju til Istanbúl og skoðuðum okkur um í stórborginni. Það var svo kl. 03:00 aðfaranótt laugardags að við yfirgáfum hótelið í tyrknesku stórborginni og voru flestir komnir til síns heima fyrir kl. 22:00 sama kvöld, allir heilir á húfi.
Í þessari ferð upplifðum við margt framandi, skemmtilegt og skrítið. Sumum fannst maturinn ekkert spes á meðan aðrir átu á sig gat. Okkur fannst skrítið að heyra bænaköllin úr turnum moskanna fimm sinnum á dag en það vandist furðufljótt. Það sem uppi stendur þó er einstök gestrisni og gjafmildi fólks, sem vildi allt fyrir okkur gestina gera.