Sagt er að öllu gamni fylgi nokkur alvara og munu þau fornu sannindi oft eiga við. Oft er eitthvað sagt í glettni, stundum til þess að kanna viðbrögð eða til þess að kanna hvort fótur sé fyrir einhverju. Er það gamalkunn leið til þess að kanna hug fólks. Í daglegu lífi bregður fólk oft á leik, fer í gervi, bregður upp rómi og býr til litla veröld sér og öðrum til skemmtunar.
Með slíkum tilbrigðum má gera lífið og um leið hversdaginn skemmtilegri. Í námi er reglulega gripið í leiki af ýmsu tagi og geta þeir verið afar ólíkir og fjölbreytilegir og þó að þeir hafi margir töluvert skemmtigildi bjóða þeir um leið upp á margs konar tækifæri til þess að setja sig í ný spor sem ekki er alltaf auðvelt í raunveruleikanum, Minningarnar sem slíkir leikir geta skilið eftir lifa oft lengi og fela í sér margs konar nám á ýmsum sviðum og er þar hugsanlega komin ástæða þess að svo margir nefna frímínútur sem uppáhaldstíma sinn í skólum.