Frá hausti hafa nemendur 7. bekkjar æft upplestur ljóða og sagna undir leiðsögn Sigrúnar Benediktsdóttur. Markmið átaksins er að nemendur þjálfist í því að flytja texta og að þjálfa framburðinn svo að áheyrendur fái sem best notið textans. Á þjálfunartímabilinu öðlast nemendur öryggi í því að koma texta til skila með margs konar blæbrigðum og geta þannig snert streng í eigin hjarta sem og áheyrenda. Takist það má segja að tilganginum hafi verið náð og að töluverðar líkur séu á að þeir sem þjálfunina fengu munu nýta sér hana sér og öðrum til gleði á ævinni og stuðla um leið að vexti og viðgangi tungumálsins.
Þó að verkefnið sé ekki keppni í sjálfu sér eru haldnar samkomur tvisvar á vetri. Fyrst í hverjum skóla fyrir sig. Þar voru valdir fulltrúar til þess að lesa fyrir hönd Varmahlíðarskóla á lokahátíðinni í FNV þann 25.mars síðastliðinn. Þeir voru Sigríður Elva Elvarsdóttir, Birta Lind Björnsdóttir, Rebekka Ósk Smáradóttir og Þormóður Jón Benediktsson, til vara.
Á lokasamkomunni tókst fulltrúum skólans vel upp og komu textanum af sannfæringu og innlifun til gesta í salnum. Þær Birta Lind og Rebekka Ósk fengu verðlaun fyrir flutning sinn. Rebekka Ósk var talinn besti flytjandinn í þessum 13 nemenda hóp og Birta Lind fékk þriðju verðlaun.
Þó að þetta sé ekki keppni, eins og fyrr var vikið að, hafa um langt skeið verið veitt verðlaun. Þau eru þátttakendunum hvatning um að halda áfram á sömu braut og að vera öðrum góð fyrirmynd í meðferð málsins.