Þriðjudaginn 12.mars síðastliðinn var komið hátíðisdegi sem 7.bekkingar höfðu beðið eftir um nokkurn tíma. Þann dag fór nefnilega fram lokahátíð Stóru upplestarkeppninnar. Samkvæmt venju var hún haldin í sal FNV og hófst hún kl. 17:00. Auk lesara, foreldra og annarra áheyrenda voru þar mættir fulltrúar úr Tónlistarskóla Skagafjarðar til þess að flytja tónlist sem hefur jafnan verið hluti dagskrár.
Dagskráin fylgdi nokkuð föstu formi. Skipuleggjandi hátíðarinnar, Laufey Leifsdóttir, bauð fólk velkomið, sagði stuttlega frá sögu keppninnar og gildi hennar og fól svo fulltrúum fyrra árs sem eru Dagmar Helga Helgadóttir, Snæfríður Áskelsdóttir og Greta Berglind Jakobsdóttir, að stýra dagskrá. Þeir fulltrúar sögðu frá verkum sem lesið var úr að þessu sinni. Í fyrsta lagi var það skáldsagan Hetja eftir Björk Jakobsdóttur, í öðru lagi voru valin tíu ljóð Braga Valdimars Skúlasonar sem lesarar máttu velja á milli og í þriðja lagi var það ljóð að eigin vali.
Lesarar dagsins voru níu. Komu þeir annars vegar úr Árskóla á Sauðárkróki og hins vegar úr Varmahlíðarskóla. Fjögurra manna dómnefnd starfaði en hana skipuðu Þorgerður Ásdís Jóhannsdóttir, Guðbjörg Bjarnadóttir, Valdimar Gunnarsson og Fríða Eyjólfsdóttir.
Eftir að lesarar höfðu flutt valda kafla úr sögunni um Hetju léku Friðrik Haukur Guðmundsson og Hallgrímur Smári Sindrason á trompet . Í annarri umferð voru flutt ljóð eftir Braga Valdimar og eftir það var komið að kaffihléi en þá gafst dómnefnd ráðrúm til þess að meta stöðuna og gestir og lesarar gátu gætt sér á kleinum og öðru góðgæti í sólskini sem oft fylgir þessum degi.
Í síðustu umferð fluttu lesarar ljóð að eigin vali og eftir það hurfu dómarar úr salnum til þess að komast að niðurstöðu um það hvaða þrír lesarar hefðu lesið best. Á meðan fengu gestir að hlýða á þrjú píanóverk. Flytjendur voru Ólöf Una Pétursdóttir, Amelia Arey Ingvarsdóttir og Valdimar Eyvar Ingvarsson. Þar á eftir lásu varamenn keppenda, þær Harpa Sóllilja Guðbergsdóttir og Pálína Petra B. Magnúsdóttir ljóð að eigin vali.
Eftir það tilkynnti Laufey Leifsdóttir niðurstöðu dómnefndar en hún var sú að í 1. sæti var Sigmar Þorri Jóhannsson úr Árskóla, í 2. sæti var Heiðdís Rós Hafrúnardóttir úr Varmahlíðarskóla og í 3.sæti var Björgvin Skúli Hauksson úr Árskóla.
Að lokinni myndatöku og afhendingu blóma sem var viðurkenning fyrir framlag lesara til dagsins gengu gestir út í milt síðdegið sem gaf fyrirheit um að vorið væri ekki svo fjarri, enda mátti heyra svani syngja og voru þeir væntanlega á leið til heiða.