Eitt af því sem heillar marga eru risaeðlur. Þó að þær séu horfnar af sjónarsviðinu fyrir alllöngu eru þær ljóslifandi í hugum sumra. Nemendur í 1.bekk hafa fjallað um þessar merku skepnur og voru á dögunum að velta þeim fyrir sér frá ýmsum sjónarhornum. Eitt af verkefnunum fólst í því að hugsa sér að þær gætu verið í öðrum lit en við sjáum þær alla jafna á myndum. Þá þurftu nemendur að prófa nýja liti og óneitanlega breyta þessar miklu og tignarlegu skepnur talsvert um svip þegar þær hafa fengið nýja og skærari liti en við eigum að venjast. En þannig er nú margt í heiminum, það þarf ekki alltaf að breyta miklu til þess að allt sýnist verulega frábrugðið því sem áður var.