Bökun piparkökuhúsa hefur verið árlegur viðburður í Varmahlíðarskóla í allmörg ár, það var eins í ár en með smá beyttu sniði. Vegna aðstæðna var vinnan núna sett upp í valgreinalotu og fengu nemendur í 8., 9. og 10. bekk að velja um að taka þátt.
Nemendur hanna húsin, gera snið sjálf, baka og skreyta eftir sínu höfði. Í flestum tilfellum vinna tveir og tveir saman. Þau gera ekki deigið sjálf, Bryndís heimilisfræðikennari segist gera það, bara svo allir sitji við sama borð. Í ár var jólaþema, eitthvað sem tengdist jólum.
Nemendur sem tóku þátt að þessu sinni voru mjög metnaðarfullir og vandvirknir og árangurinn eftir því flottur. Aðrir nemendur sem ekki tóku þátt í verkefninu völdu svo vinningshúsin ásamt yngri nemendum, starfsfólki og dómnefnd. Það er vandasamt að velja þegar afraksturinn er eins glæsilegur og raun ber vitni. Þeir sem hafa spreytt sig í hönnun, bakstri og skreytingu piparkökuhúss vita að verkefnið er ekki svo einfalt.
Úrslitum og afhendingum viðurkenninga var svo streymt í stofur svo allir gætu fylgst með. Það heppnaðist ljómandi vel og var leyst mjög vel úr aðstæðum. Vegna sóttvarnarhólfa gátum við ekki komið öll saman eins og vant er.
Vinningshafar og piparkökuhúsameistarar 2020 eru Iðunn Holst og Jóhanna Guðrún Pálsdóttir. Í mynd með fréttinni má sjá þær með fallega vinningshúsið. Í öðru sæti voru Finnur Héðinn Eiríksson og Hrafn Helgi Gunnlaugsson. Í þriðja sæti voru Lydía Einarsdóttir og Þóra Emilía Ólafsdóttir.
Til hamingju nemendur, Bryndís og annað starfsfólk sem kom að samkeppni piparkökuhúsa í ár. Glæsilegur árangur hjá ykkur.