Áralöng hefð er fyrir því að nemendur í heimilisfræðivali baki piparkökuhús fyrir jólin. Þar vinna nemendur í hópum að því að útfæra hugmynd sem mögulegt er að baka. Oft reka nemendur sig þó á að eitt og annað getur virst einfalt á blaði og verður flóknara þegar setja á húsin saman. Oft gleymist að gera ráð fyrir að burðarþol er ekki sjálfsagt og þarf því stundum að styrkja húsin frá fyrstu teikningum. Þegar húsin eru komin saman er þeim stillt upp og gefst nemendum og starfsmönnum kostur á að velja það sem þeim þykir best heppnað á hverju ári. Að þessu sinni var skíðahótel talið hið best heppnaða og má hér sjá bakarana sem verðlaunaðir voru fyrir húsið sitt en það er Sigurbjörg Svandís Guttormsdóttir, Tinna Björg Brynjarsdóttir og Ólöf Helga Ólafsdóttir.