Dagurinn hófst með hátíðardagskrá í setustofu. Fyrst sýndu nemendur í 4. bekk helgileikinn með aðstoð 5. bekkjar sem söng með. Því næst sýndu nemendur í leiklistarvali leikritið Kjóllinn hennar Grýlu eftir Þórvöru Emblu Guðmundsdóttur. Nemendur í tónlistarvali fluttu lagið "All I want for Christmas is you", og síðast en ekki síst fluttu vinningshafar söngvakeppni Friðar, lagið Líf eftir Sálina hans Jóns míns, en þeir - vinningshafarnir munu keppa á litla-Samfés í janúar. Eftir öll skemmtiatriðin var jólatréð dregið út á mitt gólf og stórir sem smáir dönsuðu nokkra fjöruga hringi áður en yfir lauk.
Næst fóru allir bekkir með umsjónarkennurum sínum upp í sínar stofur og héldu hefðbundin stofujól. Að lokum sameinuðust allir í matsalnum yfir dýrindis jólamáltíð að hætti eldhúskvenna, hangikjöt og meððí, en í eftirrétt var borinn fram ís með súkkulaðikökum sem nemendur í eldri bekkjum bjuggu til á jólaþemadaginn vikuna áður. Það er óhætt að segja að dagurinn hafi verið bæði skemmtilegur og hátíðlegur, en norðan-snjókoman átti sinn hlut í hátíðlegri stemningu og jólafrísfiðringi hjá bæði nemendum og starfsfólki.