Lestrarhesturinn

Í vetur hefur lestrarhesturinn verið á ferðinni í skólanum og heimsótt flesta bekki tvisvar og stoppað viku í senn. Á meðan hafa nemendur bekkjarins lesið eins og þeim sé borgað fyrir og reynt að koma hestinum sem lengst áleiðis því hann hefur ferðast einn kílómetra fyrir hverjar 50 lesnar blaðsíður og markmiðið hefur verið að koma honum í kringum landið. Hugmyndin er að merkja ferðir hans á sérhannað landakort sem hangir niðri í anddyri. Þess má geta að lestrarhesturinn er hannaður og smíðaður af Sveini Brynjari Friðrikssyni, smíðakennara. Starfsfólk lagði sitt að mörkum og lestrarhesturinn hafði tvisvar viðdvöl hjá þeim. Nokkuð voru útreikningar á reiki en telja má nokkuð öruggt að klárinn hafi komist hringveginn um landið með glæsibrag. Er það mál manna að þetta ferðalag hafi hvatt mjög til bóklestrar. Næsta vetur er fyrirhugað að halda þessu ferðalagi áfram og taka það heldur fastari tökum, þar sem ferðum hestsins verði m.a. gerð skil á heimasíðu skólans.