Fyrst lá leiðin á fornar slóðir kennarans þ.e. Lýtingsstaðahrepp. Byrjað var í minkabúinu í Héraðsdal, þar sem bóndinn Jesper, ásamt Marinó í Litladal, leiddi okkur í allan sannleika um minkarækt. Þá lá leiðin í Hrímnishöllina á Varmalæk, þar sem Magnea og Bjössi tóku á móti okkur og sýndu okkur aðstöðuna og rjómann af sinni ræktun. Eftir viðkomu í skólanum var haldið í sauðburðarstúss á Hofdölum syðri - þar sem Klara fór yfir aðstöðuna og fyrirkomulagið í fjárhúsunum - auk þess sem við skoðuðum ýmsa króka og kima - hrúta, bola og fiðurfénað. Að lokum lá leiðin í Stóru-Akra til Gunnars bónda, þar sem hann sýndi okkur fjósið, gjafakerfið og fjárhúsin. Voru allir sammála um að ferð sem þessi væri fræðandi og skemmtileg - og kunna nemendur og kennari bændunum bestu þakkir fyrir móttökurnar.