Flæktu ekki líf þitt að óþörfu

Geðorðin 10 eru vafalaust mörgum kunn. Víða má sjá þau á áberandi stað eins og til dæmis á isskáp.

Með því að hafa þessar stuttu en mikilvægu setningar fyrir augunum má minna sig á það sem máli skiptir, en það er að hugsa bæði um sjálfan sig og samferðafólkið gegnum lífið.
Heilsueflandi hópur skólans skipuleggur nokkrum sinnum á hverju skólaári verkefni sem unnin eru og eru þau til þess að minna á mikilvægi hreyfingar fyrir heilsuna. Ekki er þó látið duga að hugsa um hreyfingu eingöngu því að andlegi þátturinn skiptir líka máli eins og sjá má á hinum þekktu orðum, heilbrigð sál í hraustum líkama.
Í síðustu skólavikunni skipulagði hópurinn stöðvavinnu fyrir nemendur og var yfirskriftin geðorðadagurinn. Þar fór fram listsköpun, þar sem nemendur gerðu orðin góðu sýnileg, þar var einnig gefinn tími til þess að huga að og velta fyrir sér hvað þakklæti og umhyggja eru auk þess sem nemendur fengu að njóta þess að vera saman úti við leik og störf og að finna þannig hvernig hreyfingin léttir lund.
Einnig má segja að allir hafi að auki óvænt fengið að njóta þess að vinna með geðorðið: hugsaðu jákvætt, það er léttara. Veðrið var nefnilega ekki eins og fólk dreymir um undir lok maímánaðar en kom það ekki að sök þar sem dagurinn varð hinn besti og góð næring fyrir sál og líkama.