Fljótlega eftir að starfið fór af stað í haust lögðu nemendur 9.bekkjar upp í ferðalag og hittu fyrir Haukdæli, Gísla og Þorkel Súrssyni, Þórdísi systur þeirra, Auði konu Gísla og Véstein bróður hennar svo að nefnd séu nokkur nöfn. Farið var um Barðaströnd og Dýrafjörð, í Geirþjófsfjörð og út í Hergilsey á Breiðafirði svo að nefndir séu nokkrir staðir sem máli skipta í sögunni. Var ferðin hin fróðlegasta og var samróma álit ferðalanga að fátt hefði breyst í mannlegu eðli á þeim árum sem liðnir eru frá atburðunum og gerðu nemendur áfangaskýrslur um upplifun sína af ferðinni og gerðu þar grein fyrir því áhugaverðasta og eftirtektarverðasta sem þeir tóku eftir um mannlegt eðli, hefnd, réttlæti og ástina sem eru algeng stef á flestum tímum. Ferðalagið sjálft fór reyndar fram í kennslustofunni en þaðan er hægt að komast langt með lestri, umræðum og einnig getur verið heillandi að sjá Gísla og félaga eins og valið var að láta þá birtast í Útlaganum.