Við viljum gagnrýna síðustu ákvarðanatöku Menntamálastofnunar. Hefði ekki verið æskilegra að stofnunin tæki ákvörðun sem gilti fyrir alla nemendur? Að próftöku allra væri hætt. Ákvörðun þess að fresta próftöku og að sumir megi ljúka ef þeir vilji setur skóla og nemendur í vonda stöðu. Það vill enginn nemandi fresta og þurfa aftur að mæta aftur í óvissu og próftöku upp á von og óvon.
Við lögðum til að allir nemendur okkar hættu próftöku en hluti nemenda hér vildi ljúka prófi og fékk að gera það, en við viljum þó taka fram að niðurstöður prófsins geta vart verið annað en algjörlega ómarktækar í ljósi aðstæðna og vandkvæða við próftöku. Ákvörðun nemenda um að vilja fremur ljúka prófi en að hætta byggist fremur á því að vilja losna við að þurfa að sitja á ný undir þessu álagi. Ekki það endilega að það hafi allt verið að ganga vel við próftökuna. Nemendur voru orðnir stressaðir og flýttu sér við að svara til að ná einhverju inn áður en þau dyttu aftur úr sambandi.
Við leggjum til að engar niðurstöður verði teknar saman né gefnar út úr prófunum, hvorki íslensku né ensku. Taka verði tillit til þess við mat á stærðfræðinni þar sem prófumgjörðin frá deginum áður olli álagi.
Einnig viljum við leggja til að ekki verði reynt að nýju að leggja samræmd próf fyrir þennan árgang og próftöku þeirra aflýst.