Að venju var haldið upp á dag íslenskrar tungu hér í Varmahlíðarskóla eins og víða hefur verið gert síðan fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar var gerður að hátíðisdegi.
Dagskráin hófst með stuttri upprifjun á því hvað tungumál er og um glímu fólks við það að orða hugsun sína. Einnig var bent á þá miklu flækju sem það er að orða hugsun á öðru tungumáli en sínu eigin. Eftir þann inngang var gengið til dagskrár. Fyrst var atriði 3.bekkjar um fræg skáld, flest skagfirsk og fengum við innsýn í daglegt líf þeirra og hugarheim. Kór miðstigs flutti þar á eftir lagasyrpu og fékk liðstyrk yngri nemenda í laginu Á íslensku má alltaf finna svar, sem hefur unnið sér sess sem einkennislag þessa dags. Í framhaldi af því sungu gestir saman stökur. Því næst buðu 5.bekkingar okkur í ferðalag á slóðir Bakkabræðra og sýndu okkur lífshætti þeirra og ráðaleysi.
Á þessum degi hefst alla jafna undirbúningur 7.bekkjar fyrir upplestrarhátíð vorsins og fengum við sýnishorn úr fyrsta upplestarverkefni vetrarins sem er um Davíð Stefánsson. Eftir þann lestur fengu gestir að syngja tvö lög saman. Nemendur í 3. og 4. bekk fluttu okkur svo fáeinar stökur í óvanalegri útsetningu. Þá var komið að lokaatriði dagskrár sem var frá 6.bekk en þar sáum við ævintýri prinsessu sem átti bágt með svefn.
Dagskráin sýndi okkur á marga vegu hvernig má leika sér með tungumálið og koma má ýmsu til skila ýmist með endurtekningu eða með því að segja það sama á marga vegu og það hafa nemendur sannarlega gert og fengið færi til þess að gera í sviðslistatímum og í tónmennt á haustdögum.