Markmið dagsins er m.a. að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn einelti, hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu. Á þessum degi eru jákvæð samskipti í fyrirrúmi og skólasamfélagið hvatt til að taka höndum saman gegn einelti og slæmum samskiptum. Einelti hefur margvíslegar afleiðingar og ekki bara á þá nemendur sem verða fyrir því og líða fyrir það andlega og/eða líkamlega heldur hefur einelti einnig áhrif á fjölskyldur.
Miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla og umræður um einelti og afleiðingar þess eru nauðsynlegar. Öflug forvörn gegn einelti og slæmum samskiptum er að veita börnum skipulega þjálfun í að vera saman í leik og starfi þar sem lýðræði, mannréttindi og jafnrétti eru höfð að leiðarljósi. Þessi færni er liður í því að gera umhverfið jákvæðarar þar sem slæm samskipti ná síður að skjóta rótum.
Í tilefni af þessum degi fórum við öll saman út í íþróttahúsi þar sem farið var í tvo vinaliðaleiki með stóra boltanum; eltingaleik og lestarleik. Einnig dönsuðum við þrjá dansa; Cupid Shuffle, Súperman og Fugladansinn. Að því loknu fórum við út og föðmuðum skólann til að sýna hversu vænt okkur þyki um skólann okkar. Umsjónarkennarar fóru yfir eineltishringinn með sínum umsjónarhópi til að minna okkur á að við megum aldrei sofna á verðinum gagnvart einelti og við þurfum að passa upp á hvort annað. Það var líka ákveðið að þessi dagur yrði grænn þar sem við viljum öll vera sá græni í eineltishringnum.
Alltaf gaman að sjá nemendur af öllum aldri vinna og leika saman, það styrkir tengslin og vinnur með jákvæð samskipti í nemendahópnum.