Fimmtudaginn 27.mars var árshátíð yngri nemenda haldin í Miðgarði. Hún hófst klukkan 13:00 og stóð sýningin í klukkustund eða svo sem er að margra mati kjörtími fyrir samkomur. Að þessu sinni sýndi allur hópurinn leikverkið Áfram Latibær! eftir Magnús Scheving. Þar er fjallað um dygðir og dug sem birtist með ýmsu móti hjá fólki. Í upphafi sjáum við inn í bæ sem hefur með tíma orðið deyfð og doða að bráð og er því kallaður Latibær. Íbúum er þar lítt gefið um hreyfingu og margir telja vinsemd og virðingu hið versta mál. Bæjarstjórinn hefur þó áhyggjur af ástandinu en ekki tekst að koma málum í gott horft fyrr en bjargvættur birtist, en það er enginn annar en íþróttaálfurinn sem fær fólk til þess að taka sig á. Að lokum fer það svo að enginn er latur í Latabæ lengur og það rifjast upp fyrir fólki að mataræði skiptir máli. Í sýningunni eru fjölmörg lög og þar má einnig sjá dansa og margs konar tilþrif sem hæfa upprennandi íþróttafólki. Fjölmargir starfsmenn lögðu hönd á plóg við undirbúning sýningarinnar, en yfirumsjón var í höndum Írisar Olgu Lúðvíksdóttur sem sá um leikstjórn miðstigs og Hrundar Malínar Þorgeirsdóttur sem sá um leikstjórn þeirra yngstu.