Eineltisáætlun

Eineltisáætlun Varmahlíðarskóla

Viðbragðsáætlun myndrænt hér.

Við sættum okkur ekki við einelti.

Í Varmahlíðarskóla hefur verið unnið samkvæmt áætlun Olweusar gegn einelti og annarri andfélagslegri hegðun síðan hún var fyrst tekin upp á Íslandi haustið 2002. Áfram verður unnið undir merkjum Olweusar og samkvæmt því gegna umsjónarkennarar lykilhlutverki í baráttunni gegn einelti.

Hvað er einelti?
Samkvæmt skilgreiningu Olweusar og annarra norrænna fræðimanna er einstaklingur lagður í einelti, ef hann eða hún verður fyrir neikvæðum verknaði eins eða fleiri einstaklinga yfir ákveðið tímabil.

„Það er neikvæður og/eða ofbeldiskenndur verknaður ef einhver veldur öðrum viljandi tjóni eða óþægindum – með líkamlegri snertingu, í orði eða á annan hátt. Við tölum ekki um einelti nema þessu til viðbótar sé um að ræða aflsmun, þegar sá sem verður fyrir þessum neikvæða verknaði á erfitt með að verja sig og er harla varnarlaus gagnvart þeim (einum eða fleiri), sem angrar hann eða hana. 

Þrennt einkennir eineltishugtakið, samkvæmt ofangreindri skilgreiningu:

  • Árásarhneigt (ýgt) eða illa meint atferli.
  • Um er að ræða endurtekningu sem stendur yfir ákveðinn tíma.
  • Ójafnvægi afls og valda í samskiptum. “
    (Úr handbók um Olweusaráætlunina, útg. 2005, bls. 28). 

Stýrihópur
Olweusaráætlunin gerir ráð fyrir stýrihópi. Í Varmahlíðarskóla skipa umsjónarmaður sérkennslu og námsráðgjafi þennan stýrihóp, auk verkefnisstjóra,. Þeir stýra umræðum á fundum, hafa samráð um fræðslu fyrir starfsmenn og framkvæmd áætlunarinnar. Stýrihópur endurskoðar eineltisáætlun skólans eftir því sem þörf er á, árlega að öðru jöfnu.

Markmið

Langtímamarkmið
Markmið okkar er að uppræta einelti í Varmahlíðarskóla með fræðslu og vitundarvakningu meðal skólasamfélagsins alls, þ.e. nemenda, starfsfólks og foreldra.

Skammtímamarkmið
Í nóvember árlega er gerð skoðanakönnun um einelti, meðal nemenda í 4. – 10. bekk. Könnunin féll niður árið 2004, vegna verkfalls kennara. 
Ekki er unnt að leggja sambærilegar kannanir fyrir nemendur á yngsta stigi. 

Forvarnir og fræðsla

Nemendur
Fræðsla um einelti og forvarnir gegn því heyra undir lífsleiknikennsluna, en skulu ávallt höfð í huga við allt starf með nemendum og þó umsjónarkennarar gegni hér lykilhlut-verki, bera aðrir kennarar sem og starfsfólk allt sameiginlega ábyrgð á eftirfylgni og framkvæmd eineltisáætlunarinnar.
Brýnt skal fyrir nemendum að láta umsjónarkennara vita, ef grunur um einelti kemur upp. og höfða til samábyrgðar allra í skólasamfélaginu.
Bekkjarreglur gegn einelti skulu ræddar í hverjum bekk að hausti og veggspjald með þeim endurnýjað af nemendum sjálfum. Veggspjaldið skal hanga uppi í bekkjarstofunni og þannig handhægt að vísa í það, þegar aðstæður kalla á.
Eineltisskeifan skal sömuleiðis hanga uppi í hverri stofu og um hana skal fjallað og til hennar gripið á sama hátt. Áhersla skal lögð á samábyrgð allra.
Bekkjarfundir skulu haldnir hálfsmánaðarlega hið minnsta, í öllum bekkjum. Lengd fundanna fer eftir aldri og þroska nemenda og öðrum aðstæðum.
Nýta skal það fræðsluefni, sem fyrir hendi er, sbr. kennsluáætlanir í lífsleikni. 
Þar á meðal skulu Olweusarmyndbönd um einelti sýnd í 7. bekk (unglingamyndbandið) og 4. bekk (miðstigsmyndbandið). Auk þess skal sýna Ávaxtakörfuna eða sambærilegt myndband í 1. bekk.

Starfsfólk
Halda skal umræðu- og fræðslufundi meðal starfsmanna, samkvæmt sérstakri áætlun. Fundir þessir geta verið mismunandi eftir starfstegund eða – stað. Hin fjölmörgu birtingarform eineltis skulu rifjuð upp og rædd a.m.k. einu sinni á ári, á fyrsta almenna umræðufundi vetrarins (sbr. kafla 3 í starfsmannahandbók). Minnt skal á að öllum starfsmönnum ber skylda til að láta umsjónarkennara vita, ef grunur um einelti kemur upp.
Á hverju hausti skal halda námskeið um þessi mál með öllum nýjum starfsmönnum, þar með töldum starfsmönnum íþróttahúss. 
Nýir starfsmenn fá eintak af starfsmannahandbók Olweusaráætlunarinnar. 
Skólastjóri kynnir eineltisáætlun skólans á fyrsta starfsmannafundi ár hvert.

Foreldrar
Eineltisáætlun skólans skal kynnt fyrir foreldrum á kynningarfundum á haustin. 
Brýnt skal fyrir foreldrum að láta umsjónarkennara vita, ef grunur um einelti kemur upp. og höfða til samábyrgðar allra í skólasamfélaginu.
Allir nýir foreldrar skulu fá eintak af foreldrabæklingi Olweusar.

Eftirlitskerfið
Eineltiskönnun Olweusar er lögð fyrir nemendur í 4. – 10. bekk í nóvember ár hvert. Þessi könnun er afar ítarleg og spurt er út í einelti og skylda hluti frá ýmsum hliðum. Unnið er úr svörunum í Olweusarmiðstöðinni í Bergen og liggja niðurstöður fyrir í janúar.
Sambærileg könnun er lögð fyrir í yngri bekkjum.
Tengslakannanir skulu lagðar fyrir reglulega á yngsta og miðstigi, að jafnaði einu sinni á önn.
Öllum starfsmönnum, nemendum og foreldrum ber skylda til að láta umsjónarkennara vita, ef grunur um einelti kemur upp.

Viðbrögð
Umsjónarkennarinn er lykilaðili í öllum eineltismálum. Honum ber skylda til að fylgja öllum ábendingum um einelti eftir og er sérstaklega bent á kafla 9 í starfsmannahandbók Olweusar um aðferðir.
Umsjónarkennari getur leitað leiðbeininga hjá öðrum, svo sem skólastjórnendum eða námsráðgjafa, en getur ekki vísað slíkum málum frá sér til annarra, nema sérstakar aðstæður bjóði. Á sama hátt geta aðrir starfsmenn ekki hlutast til um einstök eineltismál án vitundar eða samstarfs við viðkomandi umsjónarkennara, nema aðstæður krefjist þess og þá í samráði við skólastjórnendur.
Umsjónarkennara ber, eftir því sem unnt er, að hafa samstarf við foreldra/forráðamenn, ef grunur virðist á rökum reistur.
Umsjónarkennarar skulu hafa samráð og samstarf um lausn einstakra mála, ef þau tengjast nemendum í fleiri en einum bekk.
Einstök mál geta krafist skráningar á atvikum, t.d. í frímínútum. Öll slík gögn ber að meðhöndla sem trúnaðarmál.
Umsjónarkennara ber að skrá öll eineltismál, sem upp koma, og ferlið við að leysa þau. Þetta mætti til dæmis skrá í Mentor.
Ef ekki tekst að leiða mál til lykta, ber að vísa þeim til nemendaverndarráðs. Þá skulu áðurnefnd gögn fylgja þeirri tilvísun.

Sjá nánar viðauka 1 og 2. 

Ábyrgð og aðkoma skólastjórnenda og annarra

Skólastjóri ber endanlega ábyrgð á öllu starfi innan skólans. 
Skólastjórnendum ber, eins og öllum öðrum starfsmönnum skólans, að vísa eineltismálum til umsjónarkennara og skulu ekki blanda sér í einstök tilvik án samráðs við hann, nema aðstæður beinlínis krefjist þess. Slíkar aðstæður væru t.d. ef málið tengdist umsjónarkennara persónulega.
Skólastjórnendum ber að vera umsjónarkennurum, sem og öðrum í skólasamfélaginu, til leiðbeiningar um eineltismál, sé til þeirra leitað.

Hið sama á við um námsráðgjafa og aðra, sem kynnu að fá einstök mál inn á sitt borð.